Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Glórulaust hjá dómaranum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ívar Orri Kristjánsson sýnir Brynjari Gauta Guðjónssyni rauða spjaldið.
Ívar Orri Kristjánsson sýnir Brynjari Gauta Guðjónssyni rauða spjaldið. vísir/ernir
Stjarnan og Víkingur skildu jöfn, 1-1, í leik liðanna í 15. umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta í kvöld. Stjarnan komst yfir á 75. mínútu en endaði svo á því að fá bara eitt stig og missa tvo menn út af.

"Það er erfitt að skapa eitthvað á móti Víkingunum þegar þeir liggja svona aftarlega og beita skyndisóknum. Við vissum að þeir myndu spila svona því þessu hafa þeir beitt síðan Milos tók við og gert það vel," sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, við Vísi eftir leikinn.

"Mér fannst við spila vel í dag. Við sköpuðum samt ekkert mikið af færum en eftir að við skoruðum vildi maður sigla þessu í höfn. Þannig er það nú bara. Við vorum ekkert óheppnir heldur bara klaufar að taka þetta ekki."

Michael Præst, fyrirliði Stjörnunnar, fékk beint rautt spjald fyrir að sparka Hallgrím Mar Steingrímsson niður á 77. mínútu og seinna fékk Brynjar Gauti Guðjónsson sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir að hlaupa fyrir Thomas Nielsen, markvörð Víkings.

"Þetta var glórulaust rautt spjald sem Præst fær en það var óþarfi hjá honum að fara út í svona tæklingar. Svo fær Brynjar rautt spjald eftir tilviljanakenndar pælingar hjá dómaranum. Alveg glórulaust. Það var erfitt að vera tveimur færri síðustu mínúturnar," sagði Rúnar og hélt áfram um Brynjar Gauta:

"Þetta er alveg glórulaust. Brynjar Gauti var bara að hlaupa til baka og hvort hann hafi rekist í boltann eða einhver annar veit ég ekki. Ég held að dómarinn hafi ekki vitað það sjálfur og gaf Brynjari því þetta fína gula spjald. Ég á eftir að sjá þetta aftur en ég held að þetta sé ekki rétt hjá dómaranum."

"Þetta er dýrt fyrir okkur, en sem betur fer erum við með sterkan hóp og við leysum þetta fyrir mánudaginn."

Stjörnuþjálfarinn kættist ekkert yfir því að fá eitt stig þrátt fyrir að tveimur færri síðasta hluta leiksins.

"Ég er ekkert sáttur við stigið. Þeir eru að ræna tveimur stigum frá okkur. Við vorum miklu betri aðilinn í þessum leik og eigum að fá meira út úr þessu en raun ber vitni," sagði Rúnar Páll.

Hann kveðst vonsvikinn yfir því að liðið hafi ekki loks farið í gang eftir sannfærandi sigur á Eyjamönnum á dögunum. Þeim sigri fylgdu Stjörnumenn eftir með tapi gegn Leikni og jafntefli í kvöld.

"Auðvitað vonaðist ég til þess að við myndum hrökkva í gang. Við vorum miklu betri aðilinn upp í Breiðholti í síðustu umferð en fengum ekkert þar. Frammistaðan þar var svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir en í dag var hún góð og við áttum skilið meira en eitt stig," sagði Rúnar Páll.

Aðspurður að lokum um umræðuna í kringum Jeppe Hansen á Þjóðhátíð í Eyjum sagði Rúnar Páll engar agareglur hafa verið brotnar. Daninn byrjaði á bekknum í dag eftir að vera veikur í í síðustu umferð.

"Menn fengu bara frí á laugardag og sunnudag. Það voru engar agareglur brotnar eða neitt slíkt," sagði Rúnar Páll Sigmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×