Íslenski boltinn

Ekkert sem bannar Val að nota Emil í bikarúrslitaleiknum á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emil Atlason.
Emil Atlason. Vísir/Anton Brink
Emil Atlason, lánsmaður frá KR, má spila með Val á móti KR í úrslitaleik Borgunarbikar karla á Laugardalsvellinum á morgun.

Valsmenn eru í framherjavandræðum vegna meiðsla Patrick Pedersen, markahæsta leikmanns Pepsi-deildarinnar og gætu þurfti að leita til Emils.

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar 365 er ekkert sem bannar Valsmönnum að tefla fram Emil Atlasyni gegn KR í bikarúrslitaleiknum í fótboltanum á morgun.   

KR og Valur keppa klukkan fjögur og verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.  

KR-ingar lánaðu Emil til Vals og samkvæmt heimildum íþróttadeildar er ákvæði í þeim samningi að spili Emil gegn KR þurfi Valsmenn að borga KR-ingum nokkrar milljónir króna aukalega.  

Framherjinn Patrick Pedersen, sem búinn er að skora 4 mörk í bikarnum í sumar, hefur glímt við meiðsli og óvíst er hvort hann verður leikfær á morgun.   

Emil Atlason var í byrjunarliði Vals á móti Breiðablik í síðasta leik en hann komið inná sem varamaður í þremur leikjum á undan honum.

Emil á enn eftir að skora sitt fyrsta mark fyrir Val en það var vítaspyrna hans sem tryggði Val sigur í vítakeppninni á móti KA í undanúrslitum bikarsins.

Faðir Emils, Atli Eðvaldsson, varð bæði bikarmeistari með Val (leikmaður) og KR (þjálfari) á sínum tíma en Atli var í tapliði KR þegar Valur og KR mættust síðast í bikarúrslitaleiknum fyrir 25 árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×