Körfubolti

Jordan: Ég myndi ganga frá LeBron í einstaklingseinvígi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Bentu á þann sem að þér þykir bestur.
Bentu á þann sem að þér þykir bestur. Vísir/Getty
Michael Jordan,  einn besti körfuknattleiksmaður allra tíma, sat fyrir svörum ungra aðdáenda í körfuboltaskóla sínum í Bandaríkjunum en krakkarnir voru ekkert að hlífa þessum sexfalda NBA-meistara.

Var hann meðal annars spurður út í hvor myndi sigra í einvígi, hann eða LeBron James ásamt því að vera spurður út í rifrildi Scottie Pippen og Shaquille O'Neal sem hafa undanfarnar vikur deilt á samskiptamiðlum um hvort liðið myndi vinna, bestu leikmennirnir í sögu Chicago Bulls eða Los Angeles Lakers.

Körfuknattleiksaðdáendur þreytast ekki á að rífast um hver besti leikmaður allra tíma er en Michael Jordan kemur yfirleitt fyrstur upp við þær rökræður.

„Mér datt í hug að þessi spurning kæmi. Ég held að ef ég myndi mæta LeBron þegar ég var upp á mitt besta yrði þetta aldrei spurning, ég myndi vinna örugglega.“

Þá var Jordan spurður út í hver væri mesti ruslakjafturinn (e. trash talker) sem hann lék gegn ásamt því að vera spurður út í hegðun Detroit Pistons þegar stjörnuleikmenn liðsins löbbuðu af vellinum mínútu fyrir leikslok í stað þess að óska leikmönnum Chicago Bulls til hamingju með sigurinn.

„Ætli Larry Bird hafi ekki verið mesti ruslakjafturinn sem ég spilaði gegn en ég get ekki lýst því hversu slakt mér fannst hjá leikmönnum Pistons að labba af velli. Það var ekki gott fordæmi fyrir ungt íþróttafólk,“ sagði Jordan sem var spurður hvað hann hefði gert hefði hann ekki orðið atvinnumaður í körfuknattleik.

„Mig dreymdi alltaf um að verða veðurfréttamaður, ætli ég hefði ekki reynt að lesa veðrið.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×