Fótbolti

England, Tékkland og svo litla Ísland

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta komst á stórmót í fyrsta sinn í sögunni í gær eins og alþjóð veit, en liðið tryggði sér farseðilinn á EM 2016 með markalausu jafntefli gegn Kasakstan á Laugardalsvellinum.

Ekki nóg með að strákarnir okkar séu komnir á EM í fyrsta sinn þá gerðu þeir það með svo miklum stæl að knattspyrnuheimurinn skelfur. Það eru enn tveir leikir eftir í riðlinum. Hreint ótrúlegt.

Sjá einnig: Ísland fámennasta þjóðin í sögunni sem kemst á lokakeppni EM

Litla Ísland varð í gær aðeins þriðja þjóðin sem tryggir sér farseðilinn á EM fyrir utan gestgjafa Frakklands. Englendingar voru fyrstir þegar þeir tryggðu sig inn á laugardaginn og Tékkar komust á undan okkur því þeir spiluðu við Letta í gær áður en leikur Íslands og Kasakstan hófst.

Mikil stórmótareynsla er í hópi þeirra liða sem eru komin á EM ef Ísland er tekið frá. Gestgjafar Frakka, Englendingar og Tékkar hafa öll tekið átta sinnum þátt í lokakeppni EM eða samtals 24 sinnum.

Frakkland vann EM árið 1984 og 2000, Tékkland náði öðru sæti 1996 og þriðja sæti 2004 og England hafnaði í þriðja sæti 1968 auk þess sem liðið komst í undanúrslit á heimavelli 1996. Þetta eru þjóðirnar sem Ísland er í hópi með í dag.

Þetta eru þjóðirnar sem eru komnar á EM:

Frakkland, gestgjafar: 8 (1960, 1984, 1992, 1996, 2000, 2004, 2008, 2012)

England: 8 (1968, 1980, 1988, 1992, 1996, 2000, 2004, 2012)

Tékkland: 8 (1960, 1976, 1980, 1996, 2000, 2004, 2008, 2012)

Ísland: Nýliðar

Evrópumótið hefst 10. júní á næsta ári.


Tengdar fréttir

Myndasyrpa frá fögnuðinum á Ingólfstorgi

Íslensku landsliðsmennirnir mættu í fögnuð á Ingólfstorgi í kvöld eftir að þeir höfðu tryggt sér sæti á lokakeppni EM en þetta er í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt í karlaflokki.

Biðin er loksins á enda

Íslenska karlalandsliðið er komið áfram á stórmót í knattspyrnu í fyrsta sinn í sögunni en jafntefli gegn Kasakstan á Laugardalsvelli í gærkvöldi dugði strákunum okkar til að tryggja sér farseðilinn á EM 2016 í Frakklandi. Eftir erfiðar 90 mínútur braust út gríðarlegur fagnaður í leikslok.

Lars: Ég er ekki hetja

Landsliðsþjálfararnir Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson lýstu þakklæti sínu og stolti á blaðamannafundi eftir leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×