Fótbolti

Frosinone vann fyrsta sigurinn í efstu deild | Úrslit kvöldsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Leikmenn Frosinone fagna hér marki.
Leikmenn Frosinone fagna hér marki. Vísir/Getty
Frosinone tókst að fylgja eftir góðu jafntefli gegn Juventus á útivelli um síðustu helgi með óvæntum 2-0 sigri á Empoli í ítölsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Frosinone sem er nýliði í deildinni var búið að tapa fjórum leikjum í röð fyrir jafnteflið gegn Juventus en stigið gegn ítölsku meisturunum virðist hafa vakið leikmenn liðsins til lífsins.

Federico Dionisi og Danilo Soddimo sáu um markaskorunina í leiknum með tveimur mörkum um miðbik seinni hálfleiks en Riccardo Saponara, leikmaður Empoli, fékk rautt spjald, korteri fyrir leikslok.

Það var heldur meiri dramatík í seinni leik kvöldsins, 2-1 sigri Atalanta á Sampdoria. Nikolas Moisander, leikmaður Sampdoria, varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net í upphafi leiksins.

German Denis virtist hafa tryggt stigin þrjú með öðru marki Atalanta undir lok venjulegs leiktíma en Roberto Soriano náði að klóra í bakkann fyrir Sampdoria á 94. mínútu.

Lengra komust gestirnir ekki og fögnuðu leikmenn Atalanta sigrinum en með sigrinum skutust þeir upp fyrir Sampdoria í 8. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Úrslit kvöldsins:

Frosinone 2-0 Empoli

Atalanta 2-1 Sampdoria




Fleiri fréttir

Sjá meira


×