Körfubolti

Magic og Jordan í draumaliði Shaq en enginn Kobe

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kobe Bryant og Shaq unnu þrjá titla saman með Lakers en voru engir vinir.
Kobe Bryant og Shaq unnu þrjá titla saman með Lakers en voru engir vinir. vísir/getty
Kevin Durant, leikmaður Oklahoma City Thunder í NBA-deildinni, valdi draumaliðið sitt í NBA á dögunum og virðist hafa komið af stað tískubólu vestanhafs.

Durant var með Magic Johnson sem leikstjórnanda, Kobe Bryant sem skotbakvörð, Michael Jordan í þristinum, Tim Duncan sem kraftframherja og Shaquille O'Neal undir körfunni.

Nú er Shaq búinn að velja sitt lið, en hann var fenginn til þess af blaðamanni í New Orleans. ESPN greinir frá.

Hann, eins og Durant, er með Magic sem leikstjórnanda en Michael Jordan er í hinni bakvarðarstöðunni. Julius Erving spilar þristinn í liði Shaq, Karl Malone er kraftframherji og Bill Russell, sem vann ellefu titla með Boston Celtics, er miðherji liðsins.

„Bill Russell vann ellefu meistaratitla. Charles Barkley er minn maður, en ég er hrifnari af Karl Malone. Svo er það náttúrlega maðurinn sem gerði mig að því sem ég er; Dr. J, Julius Erving. Michael Jordan spilar tvistinn og stóri leikstjórnandinn er Magic,“ segir Shaq þegar hann útskýrir valið.

Þessi fjórfaldi fyrrverandi NBA-meistari vildi þó taka eitt skýrt fram þar sem hann vissi að blaðamenn myndu gera stórmál úr því að Kobe komst ekki í liðið hans.

„Ég sé alveg vandamálið við að svara þessari spurngu. Fullt af fólki mun sárna þetta val. Síðan munuð þið blaðamennirnir reyna að búa til vandræði þar sem Shaq valdi ekki Kobe. Þá byrjar þetta Shaq og Kobe-dæmi aftur,“ segir Shaq.

„En þetta er draumaliðið mitt og mennirnir eru valdir fyrir það sem þeir afrekuðu. Russell er kannski ekki með frábærar tölur, en hann vann ellefu meistaratitla og þann árangur mun enginn bæta,“ segir Shaquille O'Neal.

Draumalið Shaq:

1) Magic Johnson

2) Michael Jordan

3) Julius Erving

4) Karl Malone

5) Bill Russell

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×