Fótbolti

Balotelli skoraði í fyrsta byrjunarliðsleiknum með AC Milan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli í leiknum í kvöld.
Mario Balotelli í leiknum í kvöld. Vísir/Getty
Vandræðabarnið Mario Balotelli skoraði eitt marka AC Milan í 3-2 sigri á Udinese í ítölsku A-deildinni í fótbolta í kvöld.

AC Milan átti algjöran drauma fyrri hálfleik þar sem liðið komst í 3-0 en Milan-menn máttu þakka fyrir að missa þetta ekki niður í jafntefli í lok leiksins.

Udinese skoraði tvö mörk í seinni hálfleiknum og fékk vissulega færi til að jafna metin undir lok leiksins.

Mario Balotelli kom AC Milan í 1-0 strax á 5. mínútu með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu en þetta var hans fyrsti leikur í byrjunarliðinu síðan að hann kom frá Liverpool.

AC Milan bætti við tveimur mörkum í fyrri hálfleiknum, Giacomo Bonaventura skoraði það fyrra á 10. mínútu eftir stungusendingu frá Riccardo Montolivo en það síðara skoraði Cristián Zapata með skalla eftir sendingu Giacomo Bonaventura.

Emmanuel Agyemang-Badu minnkaði muninn í 3-1 á 51. mínútu og Duvan Zapata skoraði annað mark aðeins sjö mínútum síðar. Leikmenn AC Milan héldu út síðasta hálftíma leiksins og fögnuðu góðum útisigri.

AC Milan komst upp í 4. sæti deildarinnar með þessum sigri en Udinese er í 17. sæti deildarinnar.

Leikmenn AC Milan fagna hér marki Mario Balotelli.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×