Fótbolti

Árni Steinn skoraði tvö í tapleik gegn toppliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Árni Steinn Steinþórsson fór frá Haukum til SönderjyskE í sumar.
Árni Steinn Steinþórsson fór frá Haukum til SönderjyskE í sumar. vísir/anton
Toplið Álaborgar hafði betur gegn SönderjyskE, 23-21, í spennandi leik í dönsku úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld.

Árni Steinn Steinþórsson skoraði tvö mörk fyrir SönderjyskE sem var í miklu basli framan af gegn toppliðinu og var fjórum mörkum undir í hálfleik, 12-8.

Álaborgarliðið réði lögum og lofum á vellinum og var sex mörkum yfir þegar fjórtán mínútur voru eftir, en þá tók SönderjyskE við sér.

Gestirnir skoruðu næstu fimm mörk og minnkuðu muninn í 20-19, en Álaborgarliðið var of sterkt á lokasprettinum og hafði tveggja marka sigur, 23-21.

Árni Steinn skoraði mörkin sín tvö úr fjórum skotum, en hafnfirsku markverðirnir; Aron Rafn Eðvarðsson hjá Álaborg og Daníel Freyr Andrésson hjá SönderjyskE, sátu allan tímann á bekknum.

Álaborg náði tveggja stiga forskoti á toppnum með sigrinum í kvöld, en Aron Rafn og félagar eru með tólf stig eftir átta leiki. SönderjyskE er með átta stig eftir átta leiki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×