Fótbolti

Blind hótar því að halda áfram með hollenska liðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danny Blind með aðstoðarmönnum sínum Marco Van Basten og Ruud van Nistelrooy.
Danny Blind með aðstoðarmönnum sínum Marco Van Basten og Ruud van Nistelrooy. Vísir/Getty
Danny Blind ætlar ekki að hætta að þjálfa hollenska landsliðið í fótbolta þótt að hollenska liðinu hafi klúðrað undankeppni Evrópumótsins.

Danny Blind tók við af Guus Hiddink í júlí en hafði áður verið aðstoðarmaður hans þá tíu mánuði sem Hiddink sat í stólnum.

Danny Blind hefur stýrt hollenska liðinu í fjórum leikjum í undankeppninni og liðið hefur tapað þremur þeirra þar af á heimavelli á móti bæði Íslandi og Tékklandi.

3 stig af 12 mögulegum, markatalan -4 (4-8) og ekkert Evrópumót er niðurstaðan eftir þessa fyrstu leiki hollenska liðsins undir stjórn Danny Blind.

„Ég ætla mér að halda áfram með mína vinnu því ég er með samning til ársins 2018 og ég hef trú á þessu liði," sagði Danny Blind á blaðamannafundi eftir 3-2 tap á móti Tékklandi í Amsterdam í gærkvöldi.

Hollendingar þurftu að treysta bæði á sjálfan sig og aðra í gær ef þeir ætluðu að komast í umspilið en hvorugt gekk upp. Tyrkir unnu Íslendinga og þeir töpuðu á heimavelli á móti tíu Tékkum eftir að hafa lent 3-0 undir.

„Ég hef ekki náð mínu markmiði. Markmiðið var að komast beint áfram á EM eða í umspilið og ég náði því ekki með liðið," sagði Blind og bætti við:

„Er þetta mér að kenna? Ég þarf að skoða það í framhaldinu og greina. Úrslitin voru í það minnsta ekki góð," sagði Blind.

Hollendingar höfðu ekki misst af úrslitakeppni Evrópumótsins síðan 1984 en þeir urðu síðan Evrópumeistarar fjórum árum síðar.


Tengdar fréttir

Fullkomið kvöld fyrir Belga | Á toppnum á þremur stöðum

Belgíumenn tryggðu sér í kvöld sigur í B-riðli undankeppni EM eftir öruggan heimasigur á Ísrael en þeir voru eins og Íslendingar búnir að tryggja sér sæti á Evrópumótinu í Frakklandi fyrir lokaleikina í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×