Enski boltinn

Sér eftir því að hafa farið til Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pedro og Ayoze Perez.
Pedro og Ayoze Perez. Vísir/Getty
Pedro yfirgaf Barcelona í haust og vildi frekar semja við Chelsea heldur en Manchester United. Nú sér kappinn eftir öllu saman enda hefur tími hans hjá Chelsea breyst í hálfgerða martröð.

Spænska blaðið Fichajes hefur eftir vinum hans að spænski landsliðsmaðurinn vildi helst snúa aftur til Barcelona og að hann sé fullur eftirsjá að hafa komið til Chelsea. Daily Express segir frá þessu í dag.

Það leit út fyrir að Pedro væri að fara til Manchester United en hann hætti við á síðustu stundu og fór frekar til Jose Mourinho á Stamford Bridge.

Pedro byrjaði mjög vel hjá Chelsea og var bæði með mark og stoðsendingu í fyrsta leik á móti West Brom sem Chelsea liðið vann 3-2.

Pedro hefur hinsvegar ekki skorað síðan í sex deildarleikjum og hann var ekki í hópnum á móti West Ham um helgina.

Ekki hefur gengið mikið hjá Chelsea-liðinu sem er aðeins í fimmtánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Pedro á meðal annars að hafa sagt vini sínum og liðsfélaga Cesc Fabregas að hann óskaði þess í dag að hafa aldrei komið til Chelsea.

Pedro sem er 28 ára gamall var mikið á bekknum hjá Barcelona enda að keppa um stöður við menn eins og Lionel Messi, Neymar og Luis Suarez og sóttist þess vegna eftir sölu.

Nú lítur varamannabekkurinn hjá Barcelona hinsvegar mikið betur út ef marka má heimildir Fichajes.

Pedro á kveðju-blaðamannafundi sínum í Barcelona.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×