Körfubolti

Forsetinn feginn að Bulls er ekki í vestrinu | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Barack Obama fékk fín sæti.
Barack Obama fékk fín sæti. vísir/getty
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, var á meðal áhorfenda á leik Chicago Bulls og Cleveland Cavaliers í Chicago í nótt þegar nýtt tímabil í NBA-deildinni hófst.

Obama er mikill stuðningsmaður Chicago Bulls og gat fagnað í leikslok þegar hans menn höfðu sigur á vængbrotnu liði Cleveland.

Forsetinn hefur mikið vit á körfubolta og ræddi aðeins um sína menn og NBA-deildina í heild í byrjun annars leikhluta í beinni útsendingu í nótt.

„Þetta lofar góðu. Það er kominn nýr þjálfari sem er að opna sóknarleikinn svolítið. Nú er bara spurning um hvort vörnin geti haldið í við þennan nýjan sóknarleik,“ sagði Obama um sína menn, en hann er spenntur fyrir tímabilinu.

„Ef þú ert með Butler og Rose viltu að þeir komist inn í teiginn og geri það sem þeir gera best. Það verður minni traffík þar núna. Ég er bjartsýnn fyrir tímabilið.“

Obama spáir því að Chicago og Cleveland mætist aftur í úrslitakeppninni en hann segir ómögulegt að vita hver stendur uppi sem sigurvegari í vesturdeildinni.

„Þetta eru tvö bestu liðin í austurdeildinni. Í vestrinu geta allir unnið. Ég er feginn að mínir menn í Bulls eru í austurdeildinni,“ sagði Barack Obama.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×