„Þegar aðrar stéttir fóru í verkfall var heilsugæslustöðvunum lokað og yfirstjórn Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu gerði engar athugasemdir. En nú stígur yfirstjórnin fram og heldur heilsugæslukerfinu gangandi með því að beita skertri vinnuskyldu,“ segir Þórarinn Eyfjörð, framkvæmdastjóri SFR.
Ekki er svarað í síma á heilsugæslustöðvunum eða tekin sýni en þar sem skjólstæðingar bóka tíma með marga vikna fyrirvara þá standast þeir tímar og fólk fær nær fulla þjónustu. „Það er verið að deyfa kjarabaráttu starfsmannanna á lægstu laununum með því að sinna öllum og hafa opið fyrir alla þjónustu.“
Þórarinn segir starfsemi heilsugæslustöðvanna löglega en að ólík viðbrögð yfirstjórnar heilsugæslunnar við verkfalli stéttanna lýsi hroka hennar í garð þessara starfsmanna.

Að meðaltali starfa fjórir til fimm móttökuritarar á heilsugæslustöðvunum. Stöðvarnar eru með undanþágu fyrir einn starfsmann. Skilningur SFR er að viðkomandi starfsmaður sinni eingöngu bráðatilfellum og aðrir komist ekki til læknis en Þórarinn segir yfirstjórn Heilsugæslunnar segja þvert nei við þeim skilningi.
„Það er fullkominn ágreiningur um það á milli okkar. Það sem þau eru búin að kalla yfir sig frá okkar hendi er að við munum taka þetta rækilega til skoðunar við gerð næsta undanþágulista. Við förum í það mál strax eftir þessa verkfallslotu.“
Þórarinn segir einstaka menn innan heilsugæslunnar með hjartað á réttum stað og bendir á Gunnar Inga Gunnarsson, yfirlækni á heilsugæslustöðinni í Árbæ sem hefur fengið hótun um uppsögn vegna stuðnings við verkfall móttökuritara. „Þetta eru menn sem segja þvert nei við þessari framkomu og vilja sýna þessum hópi sömu virðingu og þeir fengu í sínu verkfalli. En svo á að hengja fólk fyrir slíkt.“