Fótbolti

Sagði að konur ættu ekki heima í karlafótbolta og var refsað með að dæma stelpuleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kerem Demirbay fékk rautt spjald og talaði af sér.
Kerem Demirbay fékk rautt spjald og talaði af sér. vísir/getty/afp/f95
Kerem Demirbay, leikmaður Fortuna Düsseldorf í þýsku 2. deildinni í fótbolta, var látinn dæma leik hjá ungum stelpum hjá félaginu sem refsingu fyrir að móðga kvendómara í leik í nóvember. The Guardian greinir frá.

Demirbay var rekinn af velli í leik FSV Frankfurt og Fortuna Düsseldorf, en leikmaðurinn er á láni frá Hamburg.

Dómari leiksins var kvenmaður að nafni Bibiana Steinhaus sem er einn albesti kvennadómari heims. Bibiana mætti til Íslands haustið 2013 og dæmdi fyrsta leik Freys Alexanderssonar með íslenska landsliðið þegar stelpurnar okkar töpuðu fyrir Sviss.

Demirbay var ekki sáttur við reisupassann og sagði við Steinhaus: „Konur eiga ekki heima í karlafótbolta.“ Þetta sjónarmið féll illa í kramið hjá þýska knattspyrnusambandinu sem úrskurðaði hann í þriggja leikja bann og bætti við tveimur leikjum á skilorði.

Demirbay baðst afsökunar eftir atvikið og sagði: „Þessi ummæli endurspegla ekki skoðun mína á konum.“ Forráðamönnum Düsseldorf fannst þetta þó ekki nóg og ákvað að „refsa“ leikmanninum með að dæma leik hjá ungum stelpum hjá félaginu.

Þar mætti Demirbay í sparigallanum og brosti fyrir myndavélarnar. „Þetta er það sem gerist þegar ungir leikmenn gera mistök,“ stóð svo við eina myndina sem Fortuna Düsseldorf birti af stelpuleiknum á Twitter-síðu sinni.

Kerem Demirbay dæmir í sparigallanum.twitter/f95
Kerem Demirbay hefur ekkert á móti konum segir hann.twitter/f95



Fleiri fréttir

Sjá meira


×