Handbolti

Lærisveinar Alfreðs unnu dramatískan sigur á Vezprem

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Lærisveinar Alfreðs unnu gríðarlega mikilvægan sigur í dag.
Lærisveinar Alfreðs unnu gríðarlega mikilvægan sigur í dag. Vísir/getty
Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar unnu dramatískan eins marka sigur á Aroni Pálmarssyni og félögum í Veszprem, 25-24 í 10. umferð Meistaradeildar Evrópu en sigurmark Kiel kom á lokasekúndum leiksins.

Aron var að mæta í fyrsta sinn í mótsleik sínum gömlu félögum í Kiel en hann lék með þýska félaginu í sex ár undir stjórn Alfreðs Gíslasonar.

Aron var ekki lengi að stimpla sig inn en hann skoraði með þrumufleyg á fyrstu mínútum leiksins, sláin-inn og klöppuðu stuðningsmenn Kiel fyrir honum.

Leikmenn Veszprem voru með undirtökin í fyrri hálfleik og náðu þegar mest var fjögurra marka forskoti en leikmönnum Kiel tókst að minnka muninn í eitt mark undir lok fyrri hálfleiks í stöðunni 11-12.

Ungverska liðið var yfirleitt skrefi á undan í seinni hálfleik en leikmenn Kiel voru aldrei langt undan og náðu að jafna metin skömmu fyrir lok leiksins.

Það var hinsvegar Kiel sem stal sigrinum undir lok leiksins þegar Dominik Klein kom inn úr horninu og skoraði sigurmark leiksins þegar sjö sekúndur voru eftir en hann er nýkominn af stað eftir erfið meiðsli.

Var þetta í fyrsta sinn sem Kiel náði forskotinu í seinni hálfleik og í fyrsta sinn frá upphafsmínútum leiksins.

Kiel er í 4. sæti A-riðilsins með 11 stig að 10 leikjum loknum en Vezprem er í 1. sæti með 15 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×