Fjölmargir reyndu að forvitnast um árásirnar í París og er það stærsta málefni ársins samkvæmt Google. Þar á eftir koma Óskarsverðlaunin og heimsmeistaramótið í Krikket. Þá var hinn margumræddi kjóll og litur hans mikið á milli tannanna á fólki, sem og nýjasta Star Wars myndin The Force Awakens.
Á vef Google má sjá umfangsmikla og myndræna umfjöllun um árið. Þá má einnig sjá fjölda lista eftir málefnum.
Listum Google er skipt niður á milli fjölda málefna og má þar nefna kvikmyndir, leikkonur, meme og gif. Þar að auki er leitunum skipt niður eftir íþróttafólki, fegurðarspurningum, spurningum um hunda, brúðkaup frægra og tískuspurningar.
Þá er einnig vert að nefna vinsælustu „hvernig á að“ spurningarnar. Sú vinsælasta er hvernig eigi að nota nýjustu uppfærslu Snapchat. Þar á eftir kemur hvernig leysa eigi rubixkubb og hvernig eigi að safna „legendary marks“ úr leiknum Destiny.
Vinsælustu veikindin sem voru gúggluð á árinu eru flensa, sýking í þvagblöðru og mislingar. Af nógu er að taka.