Körfubolti

Unnu Golden State en töpuðu fyrir Lakers

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kobe Bryant í leiknum í nótt.
Kobe Bryant í leiknum í nótt. Vísir/Getty
Milwaukee Bucks náði ekki að fylgja eftir sigri sínum á meisturum Golden State Warriors um helgina þar sem að liðið tapaði óvænt fyrir einu lakasta liði deildarinnar í nótt, LA Lakers.

Milwaukee varð fyrst allra liða í deildinni til að vinna Golden State sem hafði unnið fyrstu 24 leiki sína á tímabilinu.

Þetta var aðeins fjórði sigur Lakers á tímabilinu en Kobe Bryant átti góðan leik og skoraði 22 stig auk þess sem hann gaf sex stoðsendingar. Sigur Lakers var öruggur en liðið náði 22 stiga forystu í þriðja leikhluta og var leikurinn aldrei spennandi eftir það.

Michael Carter-Williams skoraði nítján stig fyrir Milwaukee en Greg Monroe spilaði ekki með liðinu í nótt.

Cleveland vann Boston, 89-77, þar sem LeBron James skoraði 24 stig. Kevin Love bætti við 20 stigum og tók þar að auki átta fráköst.

Avery Bradley skoraði sautján stig fyrir Boston sem missti leikinn úr höndunum í þriðja leikhluta, er Cleveland komst tíu stigum yfir eftir að Boston hafði verið mest fimm stigum yfir.

Denver vann Minnesota, 112-110, og þar með sjötta sigur í síðustu sjö leikjum sínum. Randy Foye og Kenneth Faried voru báðir með nítján stig í leiknum.

Sacramento vann Houston, 107-97. Þetta var þriðji sigur Sacramento í röð en DeMarcus Cousins skoraði 26 stig í leiknum og tók tólf fráköst. Rajon Rondo missti af leiknum þar sem að hann tók út leikbann en í fjarveru hans skoraði Darren Collison fjórtán stig auk þess sem hann gaf þrettán stoðsendingar.

Úrslit næturinnar:

Boston - Cleveland 77-89

Minnesota - Denver 100-112

Sacramento - Houston 107-97

LA Lakers - Milwaukee 113-95

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×