Ástæðan er sú, eins og Vísir fjallaði um í morgun, að grunur leikur á um að viðkomandi starfsmaður hafi lekið upplýsingum um mál sem voru til skoðunar hjá lögreglu. Viðkomandi starfsmaður hafði meðal annars aðgang að upplýsingum sem gátu haft áhrif á umfangsmikil fíkniefnamál.

Töldu þau réttast að Sigríður Björk svaraði fyrir málið þar sem hún væri lögreglustjórinn.
Sigríður Björk var vant við látin þegar blaðamaður heyrði í henni á ellefta tímanum í morgun en boðaði svör í framhaldinu. Var óskað eftir skriflegri fyrirspurn sem blaðamaður sendi um hæl.

Í skriflegu og knöppu svari Gunnars Rúnars Sveinbjörnssonar, kynningarfulltrúa LRH, fyrir hönd Sigríðar Bjarkar sem barst fréttastofu á þriðja tímanum segir að ekki sé hægt að veita neinar upplýsingar um málefni einstakra starfsmanna.
Þá beri að hafa í huga að embætti ríkissaksóknara fari með mál „ef um er að ræða ætlað refsivert brot lögreglumanns við framkvæmd starfa hans.“
Ekkert kemur fram í svari lögreglu hvort málinu hafi verið vísað til ríkissaksóknara til að fá óháða rannsókn á meintum leka.
Heimildir Vísis herma að töluverður tími sé liðinn, nokkrir mánuðir, síðan starfsmaðurinn var færður til innan lögreglu vegna þráláts orðróms um leka.