Handbolti

Anna Sif fékk rautt spjald í tapi Nice

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arna Sif Pálsdóttir.
Arna Sif Pálsdóttir. Vísir/Ernir
Íslendingaliðið Nice varð að sætta sig við þriggja marka tap á útivelli á móti Toulon, 21-18, í frönsku kvennadeildinni í handbolta í kvöld.

Landsliðskonurnar Karen Knútsdóttir og Arna Sif Pálsdóttir spila báðar með liði Nice og þetta leit allt vel út framan af leik.

Karen Knútsdóttir var næstmarkahæst í liði Nice með fjögur mörk en Arna Sif Pálsdóttir komst ekki á blað. Arna Sif fékk hinsvegar þrjár brottvísanir og endaði leikinn með rautt spjald.

Nice lenti reyndar 5-1 undir í upphafi leiks en snéri við leiknum og var þremur mörkum yfir í hálfleik, 10-7.

Nice komst síðan mest fjórum mörkum yfir í upphafi seinni hálfleiks, 12-8, en þá voru 25 mínútur eftir af leiknum.

Karen kom Nice í 13-10 með marki úr vítakasti þegar 22 mínútur voru eftir en þá fóru heimastúlkur í Toulon í gang.

Toulon vann síðustu tuttugu mínútur leiksins 11-5 og tryggði sér þriggja marka sigur en liðið var ekki búið að fagna sigri í fimm leikjum í röð.

Nice missti Toulon upp fyrir sig eftir þetta tap og er nú í 6. sæti sem er síðasta sætið sem gefur sæti í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×