Skoðun

Samkeppniseftirlit og biðin langa

Heiðrún Lind Marteinsdóttir skrifar
Í liðinni viku birti Samkeppniseftirlitið ákvörðun nr. 1/2016, tengda samruna Gæðabaksturs ehf. og Brauðgerðar Kr. Jónssonar ehf. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að samruninn var samþykktur.

Samruni þessi krafðist ekki ítarlegrar rannsóknar af hálfu Samkeppniseftirlitsins. Þeir markaðir sem fyrirtækin starfa á voru þekktir, staða fyrirtækja á hlutaðeigandi mörkuðum var nokkuð skýr og eðli samkeppni á þeim dæmigert. Minniháttar upplýsinga var því aflað frá aðilum á markaði, auk þess sem Samkeppniseftirlitið virðist hafa átt samtöl við fulltrúa þessara sömu aðila. Rannsókn sem fram fór af hálfu stjórnvaldsins er þar með tæmandi talin.

Löggjafinn hefur sett skýrar reglur um málsmeðferðartíma í samrunamálum. Meginástæða þessa er sú að bið eftir niðurstöðu getur valdið verulegu tjóni og hagsmunir viðskiptalífsins krefjast þess að fyrirtæki geti gengið kaupum og sölum með nokkuð skjótum hætti. Þannig er um tvo skýra og aðskilda tímafresti að ræða; annars vegar 25 virka daga (Fasi I) og hins vegar 70 virka daga (Fasi II). Til síðarnefnda frestsins skal aðeins gripið ef stjórnvaldið, eftir rannsókn í fyrri fasa, telur verulegar líkur á að samruni muni hindra samkeppni. Í dæmaskyni má vekja athygli á því að á árinu 2014 framkvæmdi framkvæmdastjórn ESB rannsókn í 292 samrunamálum. Aðeins átta þessara mála, eða um þrjú prósent, fóru í síðari fasa rannsóknar. Alls voru því 284 mál afgreidd í fyrri fasa.

Ástæða þess að fyrrgreint er nú rifjað upp, er sú að í nefndu samrunamáli Gæðabaksturs ehf. fullnýtti Samkeppniseftirlitið báða fresti. Málsmeðferð tók því 95 virka daga eða frá 9. september 2015 til 21. janúar 2016 og lítið sem ekkert var aðhafst í rúmlega fjóra mánuði! Því miður er ekki um einsdæmi að ræða í málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins og á þetta sleifarlag hefur áður verið bent. Þótt áhugavert væri að heyra skýringar forstöðumanna stofnunarinnar, þá skipta þær í raun engu máli. Málsmeðferðin er einfaldlega ekki í samræmi við markmið löggjafans. Skýringar duga því ekki til í þessu tilviki, heldur verður sjáanleg og skjót breyting að verða á þessu athafnaleysi stjórnvaldsins.




Skoðun

Sjá meira


×