Körfubolti

James tók metið af Kobe í stjörnuleiknum í nótt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það var létt yfir mönnum í Toronto í nótt.
Það var létt yfir mönnum í Toronto í nótt. vísir/getty
Kobe Bryant lék sinn 18. og síðasta stjörnuleik í nótt þegar lið Vesturdeildarinnar bar sigurorð af liði Austurdeildarinnar, 196-173, í Toronto.

Bryant, sem leggur skóna á hilluna eftir tímabilið, var með 10 stig í leiknum í nótt og skoraði því alls 290 stig í stjörnuleikjum á ferlinum.

Bryant átti metið yfir flest stig í stjörnuleikjum en LeBron James hirti það af honum með því að skora 13 stig í leiknum í nótt.

James er nú búinn að skora 291 stig í stjörnuleikjum, einu meira en Bryant. Þriðji á blaði er svo átrúnaðargoð Bryants, sjálfur Michael Jordan, en hann skoraði 262 stig í stjörnuleikjum á sínum tíma.

Kevin Durant, leikmaður Oklahoma City Thunder, nálgast efstu menn en hann er kominn upp í 13. sætið á stigalistanum í stjörnuleikjum.

Durant skoraði 23 stig í leiknum í nótt og hefur því gert 179 stig í stjörnuleikjum á ferlinum, jafn mörg og Boston-goðsögnin John Havlicek gerði á sínum tíma. Durant er bara 27 ára og ætti því að geta komist enn ofar á listann á næstu árum.

Þótt ungur sé á Durant þó metið yfir flest stig að meðaltali í leik í stjörnuleikjum, eða 25,6 stig.

Flest stig í stjörnuleikjum NBA:

1. LeBron James - 291

2. Kobe Bryant - 290

3. Michael Jordan - 262

4. Kareem Abdul-Jabbar - 251

5. Oscar Robertson - 246

6. Bob Pettit - 224

7. Julius Erving - 221

8. Elgin Baylor - 218

9. Shaquille O'Neal - 202

10. Wilt Chamberlain - 191

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×