Fótbolti

Hentu tennisboltum inn á völlinn í mótmælaskyni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mats Hummels og Ilkay Gündogan reyna að koma tennisboltunum út af vellinum.
Mats Hummels og Ilkay Gündogan reyna að koma tennisboltunum út af vellinum. vísir/getty
Stuðningsmenn Dortmund mótmæltu á ný háu miðaverði þegar þeirra menn mættu Stuttgart á útivell í átta liða úrslitum þýska bikarsins í gærkvöldi.

Stuðningsmennirnir voru afar ósáttir við að þurfa að borga allt að 3.000 krónur fyrir miða á leikinn og mættu því ekki fyrr en 20 mínútur voru búnar í mótmælaskyni.

Þegar þeir mættu svo köstuðu þeir tennisboltum inn á völlinn sem er talið tákna að fótboltaáhugamenn eiga ekki jafn mikinn pening og tennisáhugamenn.

Stuðningsmenn Dortmund vilja ekki að fótbolti verði elítu-sport og voru með risastóran fána þess efnis sem á stóð: „Fótbolti verður að vera á viðráðanlegu verði.“

Forráðamenn Stuttgart gáfu lítið fyrir þessi mótmæli og bentu á að miðaverðið var jafn hátt þegar liðin mættust í þýsku 1. deildinni fyrr í vetur. Þá hefur það ekki breyst síðan tímabilið 2012/2013.

Stuðningsmannahópurinn Guli veggurinn mótmælti áður miðaverði í þýsku 1. deildinni árið 2012 þegar miðar á leik Hamburg og Dortmund kostuðu minnst tæpar 6.000 krónur.

Jürgen Klopp var þá þjálfari Dortmund en hann sagðist einmitt skilja að stuðningsmenn Liverpool gengu á dyr á 77. mínútu í leik liðsins gegn Sunderland um síðustu helgi. Þar mótmæltu stuðningsmenn Liverpool því að borga 14.000 krónur í aðalstúlkuna á Anfield.

„Fótbolti verður að vera á viðráðanlegu verði“vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×