Fótbolti

Napoli tapaði enn einu sinni stigum í toppbaráttunni á Ítalíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gonzalo Higuain skoraði í kvöld sitt 25. deildarmark á tímabilinu.
Gonzalo Higuain skoraði í kvöld sitt 25. deildarmark á tímabilinu. Vísir/Getty
Fiorentina og Napoli gerðu 1-1 jafntefli í ítölsky A-deildinni í fótbolta í kvöld en Napoli átti möguleika á því að minnka forskot Juventus á toppnum í eitt stig með sigri.

Juventus vann Internazionale 2-0 í gær og hefur 61 stig eða þremur stigum meira en Napoli-liðið.

Bæði mörkin í leiknum komu á fyrstu sjö mínútunum. Marcos Alonso kom Fiorentina í 1-0 á 6. mínútu en Gonzalo Higuaín jafnaði fyrir Napoli mínútu síðar.

Gonzalo Higuaín er langmarkahæstur í ítölsku deildinni á tímabilinu en þetta var hans 25. mark í 28 leikjum.

Napoli-liðið hefur aðeins fengið samtals tvö stig út úr síðustu þremur deildarleikjum sínum og þessi slæmi kafli ætlar að koma liðinu illa í baráttunni um ítalska meistaratitilinn.

Juventus hefur náð í fimm fleiri stig á sama tíma og er því komið með þriggja stiga forskot á toppnum.

Juventus hefur unnið sextán af síðustu sautján deildarleikjum sínum og stefnir harðbyri að fimmta meistaratitlinum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×