Körfubolti

Rekinn en ráðinn aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ingvar er kominn aftur úr kuldanum og stýrir Haukum út tímabilið.
Ingvar er kominn aftur úr kuldanum og stýrir Haukum út tímabilið. vísir/ernir
Mikið hefur gengið á að tjaldabaki hjá kvennaliði Hauka í körfubolta að undanförnu.

Í gær sendu Haukar frá sér fréttatilkynningu þar sem greint var frá því að Andri Þór Kristinsson væri hættur sem einn af þremur þjálfurum liðsins. Í stað hans var Henning Henningsson tekinn inn í þjálfarateymið en hann verður aðstoðarþjálfari Ingvars Þór Guðjónssonar.

Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur fram að málið sé flóknara en það virðist á yfirborðinu. Þar kemur fram að þeim Ingvari og Andra hafi báðum verið sagt upp störfum á miðvikudagskvöldið, en þeir voru ráðnir þjálfarar liðsins fyrir tímabilið ásamt Helenu Sverrisdóttur.

Haft er eftir Andra að eftir að hugsanlegir eftirmenn hafi ekki viljað starfið hafi honum hafi verið boðið að taka við Haukaliðinu sem aðalþjálfari, með Henning sér við hlið. Það gerðist hins vegar ekki og rúmum sólarhring eftir að Ingvar var rekinn var hann ráðinn aftur, nú sem aðalþjálfari.

Að sögn Kjartans Freys Ásmundssonar, formanns körfuknattleiksdeildar Hauka, fær „Ingvar skýrt umboð sem aðalþjálfari“.

Chelsie Schweers var rekin frá tveimur félögum á sama tímabilinu.vísir/ernir
Haukar gerðu ekki einungis breytingu á þjálfarateyminu heldur var hin bandaríska Chelsie Schweers látin fara. Kjartan Atli Kjartansson greindi frá þessu í Domino's Körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport í gær en fregnirnar voru svo staðfestar á heimasíðu Hauka.

Þar kemur fram að Haukar hafi ekki verið sáttir við frammistöðu Schweers sem kom til liðsins eftir að hún var látin fara frá Stjörnunni. Schweers lék alls sjö deildarleiki fyrir Hauka og skoraði að meðaltali í þeim 22,0 stig og gaf 2,3 stoðsendingar.

Haukar klára því tímabilið án erlends leikmanns eins og stefnt var að í upphafi. Hafnfirðingar sitja í 2. sæti deildarinnar með 34 stig, tveimur stigum á eftir Íslands- og bikarmeisturum Snæfells, en þessi lið mætast einmitt á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×