Körfubolti

Westbrook og Durant leika eftir afrek Magic og Bird

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook og Kevin Durant.
Russell Westbrook og Kevin Durant. Vísir/Getty
Liðsfélagarnir Russell Westbrook og Kevin Durant komust báðir í flottan hóp í nótt þegar þeir fóru fyrir liði Oklahoma City Thunder í 120-108 sigri á Los Angeles Clippers í NBA-deildinni í körfubolta.

Russell Westbrook var með 25 stig, 20 stoðsendingar og 11 fráköst í leiknum en þetta var ellefta þrenna hans á tímabilinu.

Kevin Durant bætti við 30 stigum, 12 fráköstum og 7 stoðsendingum og báðir hittu þeir úr meiri helmingi skota sinna.

Þegar ESPN-menn fóru að grúska í sögunni kom ýmislegt skemmtilegt í ljós sem setti þessi frammistöðu liðsfélaganna í athyglisvert samhengi.

Westbrook var aðeins sá fjórði í sögu NBA sem nær svona tröllaþrennu, það er yfir 20 í bæði stigum og stoðsendingum ásamt því að taka 10 fráköst.

Hann var sá fyrsti til að ná svona þrennu síðan Magic Johnson afrekaði það árið 1988 en hinir tveir sem hafa náð slíkum risatölum í þrennuleik í NBA eru þeir Oscar Robertsson (3 sinnum) og Isiah Thomas (1 sinni). Magic náði þessu tvisvar sinnum.

Westbrook var vissulega sá fyrsti síðan Magic en Kevin Durant var aftur á móti sá fyrsti síðan Larry Bird til að ná 25-10-5 í sjö leikjum í röð.

Durant hefur nefnilega í undanförnum sjö leikjum verið með yfir 25 stig, yfir 10 fráköst og yfir 5 stoðsendingar.

Hann jafnaði þar með met Larry Bird frá 1981-82 og gerði betur en Michael Jordan sem náði því mest í sex leikjum í röð tímabilið 1988-89.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×