Körfubolti

Golden State færist nær metinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stephen Curry og Draymond Green áttu báðir stórleik í sigri Golden State.
Stephen Curry og Draymond Green áttu báðir stórleik í sigri Golden State. vísir/getty
Sex leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Golden State Warriors færist nær meti Chicago Bulls frá tímabilinu 1995-96 eftir átta stiga sigur, 102-94, á Washington Wizards á heimavelli.

Þetta var 67. sigur Golden State í vetur en liðið hefur átta leiki til að bæta met Chicago sem vann 72 leiki fyrir 20 árum.

Stephen Curry var stigahæstur í liði Golden State með 26 stig en hann tók auk þess sjö fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Klay Thompson kom næstur með 16 stig. Þá átti Draymond Green afbragðs leik með 15 stig, 16 fráköst og níu stoðsendingar.

Frábær lokaleikhluti tryggði Houston Rockets sigur á Cleveland Cavaliers, 100-106.

Cleveland, sem lék án LeBron James sem var hvíldur, leiddi með 13 stigum, 84-71, fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. En þar tóku Houston-menn öll völd á vellinum, unnu leikhlutann 35-16 og leikinn með sex stigum, 100-106.

James Harden skoraði 27 stig og gaf átta stoðsendingar í liði Houston en Kyrie Irving fór fyrir Cleveland-liðinu með 31 stigi og átta stoðsendingum.

Úrslitin í nótt:

Golden State 102-94 Washington

Cleveland 100-106 Houston

Indiana 96-98 Chicago

Orlando 139-105 Brooklyn

Philadelphia 85-100 Charlotte

Detroit 88-82 Oklahoma

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×