Körfubolti

Sópurinn á lofti hjá Spurs og Cavs | Þristaregn hjá Golden State

Tómas Þór Þórðarson skrifar
San Antonio Spurs varð fyrsta liðið til að komast í undanúrslit vesturdeildarinnar í NBA-körfuboltanum í nótt þegar liðið gekk frá Memphis Grizzlies á útivelli, 116-96, en Spurs vann einvígið 4-0.

Kawhi Leonard skoraði 21 stig fyrir San Antonio og Tony Parker og LaMarcus Aldridge bættu við 16 og 15 stigum fyrir Spurs en meiðslum hrjáð Memphis-liðið átti aldrei möguleika í rimmunni.

Cleveland Cavaliers var einnig með sópinn á lofti í rimmu sinni gegn Detroit Pistons en LeBron James og félagar unnu fjórða leikinn í nótt, 100-98, og einvígið í fjórum leikjum.

Kyrie Irving fór á kostum fyrir ríkjandi austurdeildarmeistarana og skoraði 31 stig en LeBron James skoraði 22 stig, tók ellefu fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Golden State Warriors heldur áfram að slá allskonar met en í nótt komst liðið í 3-1 í einvígi sínu gegn Houston Rockets með 121-94 sigri í Houston.Stephen Curry meiddist í öðrum leikhluta og sneri ekki aftur til leiks.

Golden State setti met í þriggja stiga körfum í úrslitakeppninni þrátt fyrir að besta skytta deildarinnar, Curry, væri ekki með. Liðið setti samtals 21 þriggja stiga körfu í leiknum.

Klay Thompson skoraði sjö þrista, þar af fjóra í þriðja leikhluta þar sem Golden State gekk endanlega frá leiknum og stakk Houston af. Meistararnir skoruðu 41 stig í þriðja leikhluta.

Thompson var stigahæstur með 23 stig en hann hitti úr sjö af ellefu þriggja stiga skotum sínum. Andre Igoudala kom sterkur inn af bekknum en hann skoraði 22 stig og var með ótrúlega hittni. Hann setti niður þrjú af fjórum þriggja stiga skotum sínum og níu af ellefu skotum í heildina.

Í hinum leik kvöldsins átti Celtics flottan leik gegn Atlanta Hawks og jafnaði einvígið í 2-2 með 104-95 sigri.

41 stig í þriðja leikhluta án Curry:
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×