Körfubolti

Oklahoma City svaraði fyrir sig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Oklahoma City náði að svara fyrir tapið stóra í fyrsta leiknum í undanúrslitarimmu vestursins í úrslitakeppninni NBA-deildarinnar gegn San Antonio með sigri í nótt, 98-97.

San Antonio hefur verið nánast ósigrandi á heimavelli í vetur og yfirspilaði Oklahoma City í leik liðanna um helgina.

Heimamenn fengu reyndar tækifæri til að tryggja sér sigur í nótt en þeir náðu ekki að skora á lokasekúndum leiksins. Patty Mills fékk opið þriggja stiga skot en það geigaði. San Antonio náði líka sókanrfrákastinu en náði ekki að skjóta áður en tíminn rann út.

Russell Westbrook skoraði 29 stig fyrir Oklahoma City og gaf þar að auki tíu stoðsendingar. Kevin Durant kom næstur með 28 stig.

LaMarcus Aldridge skoraði 41 stig fyrir San Antonio sem var með samtals 43 prósent skotnýtingu í nótt, samanborið við 61 prósent í fyrsta leiknum. Þriðji leikur liðanna er á föstudagskvöld.

Cleveland vann Atlanta, 104-93, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum austursins. LeBron James skoraði 25 stig fyrir Cleveland og Kyrie Irving 21 stig.

Cleveland byrjaði mun betur og náði mest átján stiga forystu í síðari hálfleik. Atlanta kom þó til baka og komst yfir snemma í fjórða leikhluta. En Cleveland tók þá aftur völdin í leiknum og vann áttunda sigur sinn gegn Atlanta í úrslitakeppninni í röð.

Næsti leikur liðanna fer fram annað kvöld.

NBA í nótt:

Cleveland - Atlanta 104-93

San Antonio - Oklahoma City 97-98

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×