Íslenski boltinn

Danskur kantmaður á leið til Víkings

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin Svensson í leik með Vejle í fyrra.
Martin Svensson í leik með Vejle í fyrra. Vísir/Getty
Víkingar hafa í hyggju að styrkja sig enn frekar fyrir sumarið í Pepsi-deild karla en liðið er á góðri leið með að semja við Martin Svensson, 26 ára danskan miðjumann.

Svensson spilaði síðast með Vejle í Danmörku en var áður á mála hjá Viborg, Randers og Silkeborg. Hann var áður samherji Theodórs Elmars Bjarnasonar, landsliðsmanns, sem gaf Víkingum meðmæli sín.

Milos Milojevic, þjálfari Víkings, segir að verið sé að ganga frá pappírsmálum og að leikmaðurinn sé á leið til landsins. Það sé hins vegar ekkert undirritað enn sem komið er.

„Við reyndum að fá hann í fyrra en það gekk ekki. Nú er hann til í að koma hingað á réttum forsendum og við teljum að þetta sé leikmaður sem getur styrkt okkur,“ sagði Milos við Vísi í dag.

„Þetta er öflugur strákur og við höfum fylgst með honum í eitt ár. Hann er kantmaður sem er kærkomið vegna meiðsla Tufa [Vladimir Tufegdzic] og Davíðs [Arnar Atlasonar]. Hann fyllir í það skarð.“

Víkingur er í áttunda sæti Pepsi-deildar karla með eitt stig en liðið leikur gegn Breiðabliki annað kvöld.

Lokað verður fyrir félagaskipti hér á landi 15. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×