Verð á hráolíu hækkar enn og er nú komið yfir fimmtíu Bandaríkjadali á tunnuna í fyrsta sinn á árinu. Í byrjun árs var verðið komið niður fyrir 28 dali á tunnuna, sem var lægsta hrávöruverð á olíu í þrettán ár.
Að því er breska ríkisútvarpið greinir frá, má meðal annars rekja ástæður verðhækkunarinnar til eldanna sem geisað hafa í Kanada að undanförnu og hægt á olíuframleiðslu þar í landi. Kanada selur Bandaríkjamönnum meiri olíu en nokkurt annað land og eldarnir hafa haft það í för með sér að útflutningur til Bandaríkjanna hefur dregist saman um um það bil milljón tunnur á dag.
Þá höfðu samningar milli Rússlands og Samtaka olíuútflutningsríkja um framleiðsluþak á hráolíu þegar hjálpað til við að hækka verðið.
Olíuverð komið yfir fimmtíu dali á tunnina
