Körfubolti

Fyrsta tap Cleveland í úrslitakeppninni kom í Kanada | Myndbönd

Kristinn Páll Teitsson skrifar
DeMar DeRozan sækir inn að körfunni í nótt.
DeMar DeRozan sækir inn að körfunni í nótt. Vísir/Getty
Toronto Raptors náði að svara og minnka muninn í 1-2 í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar í NBA með 99-84 sigri á Cleveland á heimavelli í nótt.

Var þetta í fyrsta sinn í sögu félagsins sem Toronto vann leik í úrslitum Austurdeildarinnar.

Stuðningsmenn Toronto voru ekki búnir að gefa upp alla von og létu vel í sér heyra í nótt þrátt fyrir að liðið hafi fengið stóran skell í fyrstu leikjunum sem fóru fram í Cleveland.

Liðin skiptust á körfum framan af og var munurinn eftir fyrsta leikhluta ekki nema þrjú stig, Tornonto í vil en í öðrum leikhluta tókst heimamönnum að mynda gott forskot.

Bismack Biyombo fór fyrir liðinu í vörninni og DeMar DeRozan sá um sóknarleik liðsins í nótt og tók Toronto þrettán stiga forskot inn í hálfleikinn.

Var Biyombo með sextán fráköst og fjögur varin skot í hálfleik en hann lauk leik með 26 fráköst og 6 varin skot.

Gestirnir frá Cleveland gerðu nokkur áhlaup í þriðja og fjórða leikhluta og náðu að minnka forskotið niður í fimm stig á ný.

Þá settu leikmenn Toronto fótinn aftur á bensíngjöfina og náðu að halda aftur af öllum áhlaupum Cleveland.

Fór svo að leiknum lauk með fimmtán stiga sigri Toronto 99-84 en það þarf ekki að fara langt til að sjá hvað fór úrskeiðis hjá Cleveland í nótt.

Tvær af þremur stjörnum liðsins, Kevin Love og Kyrie Irving, hittu aðeins úr 4/28 skota sinna í nótt og lék Love fyrir vikið ekkert í fjórða leikhluta.

Leikur fjögur í þessu einvígi fer fram annað kvöld og verður fróðlegt að sjá hvernig leikmenn Cleveland Cavaliers mæta til leiks eftir fyrsta tapleikinn í úrslitakeppninni í ár.

Allt það helsta úr leiknum í kvöld: Biyombo átti magnaðan leik í vörninni: DeRozan bar sóknarleik Toronto á herðum sér:
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×