Körfubolti

Steve Kerr braut þjálfaraspjaldið sitt í reiðikasti í nótt | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steve Kerr, þjálfari Golden State Warriors, talar við sína menn áður en hann braut þjálfaraspjaldið sitt.
Steve Kerr, þjálfari Golden State Warriors, talar við sína menn áður en hann braut þjálfaraspjaldið sitt. Vísir/Getty
NBA-meistarar Golden State Warriors eru komnir í 1-0 í úrslitaeinvíginu á móti Cleveland Cavaliers eftir sannfærandi 104-89 sigur í nótt. Reiði þjálfarans Steve Kerr fór þó ekkert framhjá mönnum í þriðja leikhlutanum.

Þetta var fjórði sigur Golden State í röð því liðið vann þrjá síðustu leiki sína í einvíginu á móti Oklahoma City Thunder.

Golden State Warriors vann alla leikhlutana nema þann þriðja. Cleveland var 9 stigum undir í hálfleik en var búið að minnka muninn í fjögur stig eftir aðeins fjögurra mínútna leik í þriðja leikhlutanum.

Steve Kerr tók þá leikhlé og var allt annað en sáttur. Hann barði svo fast í þjálfaraspjaldið sitt að það mölbrotnaði.

„Að eyðileggja eitthvað léttir vanalega eitthvað á reiðinni. Ég reyni að taka reiðina frekar út á þjálfaraspjaldinu en á leikmönnunum. Það er betra þannig," sagði Steve Kerr aðspurður um atvikið á blaðamannafundi eftir leikinn. En af hverju braut hann spjaldið sitt?

„Við komum út eftir hálfleikinn og vorum algjörlega búnir að missa einbeitinguna. Við vorum að senda kæruleysislegar sendingar og gleyma okkur í vörninni. Við þurftum að ná aftur upp einbeitingunni og okkar leik. Bekkurinn gerði það fyrir okkur," sagði Steve Kerr.

Golden State Warriors var sex stigum yfir fyrir lokaleikhlutann en vann hann síðan með níu stigum, 30-21. Steve Kerr hefur þar með stýrt liði til sigurs í fimm af fyrstu sjö leikjum sínum sem þjálfari í lokaúrslitum NBA.

ESPN setti saman myndband þar sem karatetilþrif Steve Kerr sjást vel en myndbandið er hér fyrir neðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×