Körfubolti

Púslið sem lagði grunninn að NBA-titli Cleveland Cavaliers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Cleveland Cavaliers fagna hér titlinum í nótt.
Leikmenn Cleveland Cavaliers fagna hér titlinum í nótt. Vísir/EPA
Cleveland Cavaliers vann í nótt sinn fyrsta NBA-titil í sögu félagsins og ennfremur fyrsta titil atvinnumannaliðs frá Cleveland í 52 ár. Eftir sjöunda og síðasta leikinn fóru að koma fréttir af leyndarmálinu í klefa Cavaliers-liðsins.

Leikmenn Cleveland Cavaliers fögnuðu nefnilega með tvo bikara í búningsklefanum eftir leikinn, sjálfan NBA-bikarinn sem þeir voru að vinna og bikarinn á púsluspilinu sem var lykilatriði í að þétta raðir Cleveland-liðsins í úrslitakeppninni.

Varamaðurinn James Jones, sem hefur ekki mikið fengið að spila en var að vinna sinn þriðja NBA-meistaratitil með LeBron James, fékk hugmyndina fyrr á tímabilinu og leikmenn liðsins tóku vel í þetta. ESPN sagði frá.

James Jones úbjó púsl með sextán hlutum eða einn fyrir hvern sigur sem Cleveland Cavaliers þurfti að vinna til að komast á toppinn og tryggja sér NBA-meistaratitilinn. Þegar öll sextán púslin voru komin saman þá mynduðu þau Larry O'Brien bikarinn.

„Við þurfum eitthvað til að þjappa okkur saman. Allir leikmenn voru eitt púsl og við settum þetta lið saman. Við þurftum því að setja saman púslið," sagði James Jones eftir leikinn.  

Púsluspilinu var haldið leyndu af leikmönnum og þjálfurum og geymt í tösku sem leit aldrei dagsins ljós utan búningsklefans. Leikmenn liðsins skiptust á því að setja hvert púsl og það var sem dæmi Kevin Love sem setti púslið eftir leik þrjú í úrslitunum en hann mátti ekki spila þann leik eftir að hafa fengið heilahristing í leiknum á undan.

Lokapúslið var í laginu eins og Ohio. Það var þjálfarinn Tyronn Lue sem fullkomnaði púslið á meðan leikmenn og starfsmenn liðsins fögnuðu með kampavínið í klefanum eftir leik.

NBA

Tengdar fréttir

LeBron átti forsíðurnar á öllum blöðunum í Ohio-ríki | Myndir

LeBron James og félögum í Cleveland Cavaliers tókst hið ómögulega í nótt þegar þeir kórónuðu endurkomu sína eftir að hafa lent 3-1 undir á móti ríkjandi NBA-meisturum Golden State Warriors og tryggðu Cleveland sinn fyrsta meistaratitil í 52 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×