Erlent

Ítalir kjósa um gjörbreytingu á stjórnarskránni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hinn 41 árs gamli Matteo Renzi ætlar að segja af sér embætti felli landsmenn tillögu hans.
Hinn 41 árs gamli Matteo Renzi ætlar að segja af sér embætti felli landsmenn tillögu hans. vísir/epa
Útlit er fyrir að kosning Breta um útgöngu úr Evrópusambandinu verði ekki eina evrópska þjóðaratkvæðagreiðslan sem gæti haft gífurleg áhrif. Framundan er kosning í Ítalíu sem beðið er víða.

Fyrr á árinu lagði Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, fram frumvarp um miklar breytingar á stjórnskipan landsins. Stjórnarskrárfrumvarpið var samþykkt í báðum deildum ítalska þingsins en ekki með tveimur þriðju atkvæða. Því þarf að leggja breytingarnar í dóm þjóðarinnar.

Ítalska þingið saman stendur af tveimur deildum. Til að frumvörp verði að lögum þarf að samþykkja þau samhljóða í báðum deildum. Takist það ekki eru þau send til baka í nýrri mynd. Þekkt er að frumvörp festist í einhverskonar limbói og ferðist fram og til baka á milli deilda.

Tillaga Renzi hljóðar upp á að þingmönnum í efri deild þingsins, öldungadeildinni, verði fækkað úr 315 í hundrað. Þá er einnig lagt til að ríkisstjórn landsins þurfi ekki að njóta stuðnings beggja deilda þingsins heldur aðeins neðri deildarinnar.

Nákvæm dagsetning fyrir kosninguna hefur ekki enn verið ákveðin en þó er víst að hún verður í október. Renzi hefur gefið það út að verði stjórnarskrárbreytingin ekki samþykkt muni hann segja af sér.

Kannanir sem gerðar hafa verið sýna að mjótt er á mununum milli fylkinga en þó virðast þeir sem ætla að kjósa nei hafa yfirhöndina. Enn eru þó gífurlega margir sem eiga eftir að ákveða sig.

Fjárfestar fylgjast spenntir með þróun mála. Verði tillagan felld og segi Renzi af sér mun líklega þurfa að boða til nýrra þingkosninga. Sem stendur mælist popúlistaflokkurinn Movimento 5 Stelle, Fimm stjörnu hreyfingin, stærstur en meðlimir flokksins eru tortryggnir gagnvart Evrópusambandinu og myntbandalaginu sem því fylgir. Flokkurinn hefur boðað að kosningar um framtíð Ítalíu nái hann kjöri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×