Körfubolti

Martin um vistaskiptin: Þjálfarinn gerir miklar væntingar til mín

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og fram kom á Vísi í gær hefur Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, samið við franska 2. deildarliðið Étoile de Charleville-Mézières.

Martin hefur undanfarin tvö ár leikið með LIU Brooklyn háskólanum í Bandaríkjunum og staðið sig með prýði.

„Þessi deild er hrikalega sterk ef hún er borin saman við aðrar deildir í Evrópu,“ sagði Martin í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Martin segir að það hafi alltaf verið á stefnuskránni hjá sér að spila tvö ár í bandaríska háskólaboltanum áður en hann reyndi fyrir sér í atvinnumennsku.

„Mér líst mjög vel á þetta, þjálfarann og liðið. Hann gerir miklar væntingar til mín þannig ég ákvað að stökkva á þetta,“ sagði Martin.

Hann kveðst hafa lært mikið á árunum tveimur í Bandaríkjunum.

„Þetta var mjög skemmtilegur tími og mótaði mig mikið sem einstakling og körfuboltamann. Ég hef bætt mig mikið og þetta var frábær lífsreynsla,“ sagði Martin.

Undanfarnar vikur hefur Martin æft af kappi með íslenska landsliðinu sem undirbýr sig fyrir undankeppni EuroBasket 2017. Hann segir að íslenska liðið stefni á að komast aftur á stóra sviðið.

„Næsta markmið er að koma sér á EuroBasket á næsta ári. Við vitum hvað til þarf og hvernig tilfinningin er að vera þarna. Okkur langar aftur,“ sagði Martin.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×