Handbolti

Bronsdrengirnir ætla sér stóra hluti á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir í U-20 ára landsliði Íslands í handbolta héldu í dag til Danmerkur þar sem þeir taka þátt á EM.

Þetta lið náði frábærum árangri í fyrra þegar það vann Opna Evrópumótið í Svíþjóð og lenti í 3. sæti á HM í Rússlandi.

Ísland er í sterkum riðli með Slóveníu, Rússlandi og Spáni en tvö efstu liðin komast áfram í milliriðil.

„Það er nánast orðin venja í íslenskum íþróttum að gæla vel við það að fara alla leið. Og við stefnum á það,“ sagði Ólafur Stefánsson í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2. Ólafur þjálfar U-20 ára liðið ásamt Sigursteini Arndal.

Ólafur segir íslenska liðið vel mannað og líkamlega sterkt.

„Þetta er nánast sami hópur og síðast. Fyrstu 7-9 eru allir komnir yfir 100 kg. Það eru styrkleikarnir og svo eru þetta góðir handboltamenn. En ætli aðalstyrkleikinn sé ekki karakterinn, það var það síðast,“ sagði Ólafur en íslenska liðið spilar afar öfluga 5-1 vörn.

„Fyrsta vörnin okkar er Eyjavörnin sem skilaði sér mjög vel á síðasta móti. Svo eigum við 6-0 vörn, sem við spilum líka mjög vel, í bakhöndinni.“

Ísland mætir Rússum í fyrsta leik sínum á fimmtudaginn. Daginn eftir mæta íslensku strákarnir gríðarsterku liði Slóveníu sem var það eina sem vann Ísland á HM í fyrra.

Á sunnudaginn mæta strákarnir svo Spáni í lokaleik sínum í riðlinum. Allir leikirnir hefjast klukkan 18:00 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×