Enski boltinn

Umboðsmaður Pogba: Er nákvæmlega sama hvort hann kostar metfé

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Talið er að Raiola fái tæpar 20 milljónir í sinn hlut ef Pogba verður seldur til Manchester United.
Talið er að Raiola fái tæpar 20 milljónir í sinn hlut ef Pogba verður seldur til Manchester United. vísir/getty
Stjörnuumboðsmaðurinn Mino Raiola segir að það skipti hann engu máli hvort Manchester United geri franska miðjumanninn Paul Pogba að dýrasta leikmanni allra tíma.

Flest bendir til þess að Pogba sé á förum frá Juventus til United en félagið þarf væntanlega að borga metfé fyrir Frakkann öfluga. Raiola segir að umræðan um kaupverðið skipti hann engu máli.

„Mér er nákvæmlega sama um svona met,“ sagði Raiola.

„Fjölmiðlar greina frá því að Pogba gæti orðið sá dýrasti en ég hef þegar slegið met með Zlatan Ibrahimovic og Pavel Nedved.

„Ég vil aðeins það besta fyrir mína leikmenn, þ.m.t. Pogba. Það eru sumir hlutir sem ég ræði bara við mína skjólstæðinga.“

Fari svo að Pogba gangi í raðir United mun Raiola hagnast verulega á þeim félagaskiptum en talið er að hann fái tæpar 20 milljónir punda í sinn hlut.

United hefur þegar keypt tvo leikmenn í sumar sem Raiola er með á sínum snærum, áðurnefndan Zlatan Ibrahimovic og Armenann Henrikh Mkhitaryan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×