Greiningaraðilar telja að Apple muni græða allt að þrjá milljarða dala á næstu tveimur árum vegna leiksins Pokémon Go. Leikurinn er ókeypis en notendur geta keypt ýmsa hluti í honum. Apple er talið taka um þriðjung af öllum slíkum greiðslum sem framkvæmdar eru í gegnu App Store forritið.
Þann 18. júlí voru notendur Pokémon GO í Bandaríkjunum alls 21 milljón. Innan við tveimur vikum eftir að leikurinn kom út.
Í frétt Reuters er haft eftir Lauru Martin frá fyrirtækinu Needham að tíu sinnum fleiri notendur Pokémon GO eyði peningnum í leiknum miðað við notendur Candy Crush. Tekjur Candy Crush á árunum 2013 og 2014 voru rúmlega einn milljarður dala.
Þar að auki hefur því verið haldið fram að notendur Pokémon GO verji meiri tíma í leiknum en á Facebook á hverjum degi.
Leikurinn er nú aðgengilegur í 35 löndum fyrir bæði notendur Apple og Android. Eigendur raftækjaverslana hafa tekið eftir aukningu í sölu á hleðslutækjum fyrir síma og símahulstur sem innihalda rafhlöður.
![Fréttamynd](/static/frontpage/images/kvoldfrettir.jpg)