Handbolti

Sigurvegari stígur frá borði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Onesta vann átta stórmót sem þjálfari franska landsliðsins.
Onesta vann átta stórmót sem þjálfari franska landsliðsins. vísir/getty
Claude Onesta er hættur sem þjálfari franska handboltalandsliðsins. Hann staðfesti þetta í samtali við L'Equipe.

Við starfi hans tekur aðstoðarþjálfarinn og fyrrum varnarjaxlinn Didier Dinart. Honum til aðstoðar verður Guillaume Gille, fyrrverandi landsliðsmaður.

Onesta þjálfaði franska landsliðið í 15 ár og náði stórkostlegum árangri.

Það tók hann fimm ár að vinna fyrsta stórmótið (EM 2006) en svo tók við nánast samfelld 10 ára sigurganga.

Undir stjórn Onesta urðu Frakkar þrívegis heimsmeistarar, þrívegis Evrópumeistarar og unnu til gullverðlauna á Ólympíuleikunum 2008 og 2012.

Dinart er einn besti varnarmaður handboltasögunnar, ef ekki sá besti.vísir/getty
Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í danska landsliðinu komu í veg fyrir að Frakkar tækju þriðja Ólympíugullið í röð þegar þeir unnu þá í úrslitaleiknum í Ríó í síðasta mánuði, 28-26. Þetta var eini úrslitaleikurinn undir stjórn Onesta sem Frakkar töpuðu.

Onesta er þó ekki hættur afskiptum af landsliðinu því hann tekur við starfi eins konar framkvæmdastjóra hjá franska handknattleikssambandinu.

Hinn 39 ára gamli Dinart, sem var besti varnarmaður heims á sínum tíma, hefur verið aðstoðarþjálfari franska liðsins frá 2013 og alltaf fengið stærra hlutverk. Á stórmótunum í ár, EM í Póllandi og Ólympíuleikunum í Ríó, sá hann t.a.m. að mestu um að stýra franska liðinu á bekknum.

Fyrsta stóra verkefni Dinarts er HM í janúar á næsta ári sem fer einmitt fram í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×