Handbolti

Ótrúlegur endasprettur lærisveina Arons

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Kristjánsson landaði sigri í kvöld.
Aron Kristjánsson landaði sigri í kvöld. vísir/getty
Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í danska úrvalsdeildarliðinu Álaborg unnu rafmagnaðan spennusigur á GOG í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld, 31-29.

Álaborgarliðið var í flottum málum í hálfleik er það leiddi með sex mörkum, 16-10. Í seinni hálfleik fór að halla undan fæti og jafnaði GOG í 27-27 þegar rétt rúmar fimm mínútur voru eftir.

Gestirnir gerðu gott betur en það og komust tveimur mörkum yfir eftir að Stefán Rafn Sigurmannsson klúðraði fyrsta skoti sínum í leiknum með því að láta verja frá sér og norska undrabarnið Sander Sagosen skaut í slána.

GOG var 29-27 yfir þegar þrjár og hálf mínúta voru til leiksloka en þá fóru heimamenn í Álaborg aftur í gang, skoruðu fjögur síðustu mörkin og innbyrtu ótrúlegan sigur, 31-29.

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði ekki í leiknum í kvöld en hann brenndi af eina skoti sínum í leiknum. Hann gaf aftur á móti eina stoðsendingu eins og Arnór Atlason sem skoraði eitt mark í þremur skotum.

Álaborg er áfram á toppnum með 16 stig eftir níu leiki en það er búið að vinna alla sína leiki nema einn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×