Handbolti

Aron var meira í því að leggja upp mörk í sigurleik gegn Nexe

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Aron Pálmarsson var ekki að skjóta vel í kvöld en sendingarnar voru í lagi.
Aron Pálmarsson var ekki að skjóta vel í kvöld en sendingarnar voru í lagi. vísir/getty
Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handbolta, og félagar hans í ungverska meistaraliðinu Veszprém unnu fjögurra marka sigur, 27-23, á króatíska liðinu Nexe í SEHA-deildinni í kvöld.

SEHA-deildin er einskonar ofurdeild fyrir lið í suðuraustur Evrópu en þar spila stórlið á borð við Veszprém, PPD Zagreb, Celje Lasko og Vardar Skopje.

Aron og félagar voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 17-12, en gestirnir minnkuðu muninn mest niður í þrjú mörk, 19-16.

Aron skoraði aðeins eitt mark í kvöld úr fjórum skotum en hann var meira í því að leggja upp mörk fyrir félaga sína. Hann var stoðsendingahæstur á vellinum með fimm stykki.

Veszprém, sem hefur unnið SEHA-deildina undanfarin tvö ár, er með fimmtán stig eftir sex leiki. Það er tíu stigum á eftir Vardar Skopje en á þrjá leiki til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×