Körfubolti

Curry: Allen er besta skytta sögunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Allen og Curry eigast við í leik Boston Celtics og Golden State Warriors fyrir nokkrum árum.
Allen og Curry eigast við í leik Boston Celtics og Golden State Warriors fyrir nokkrum árum. vísir/afp
Stephen Curry, verðmætasti leikmaður NBA-deildarinnar undanfarin tvö tímabil, hrósar Ray Allen, sem greindi frá því í gær að hann væri hættur að spila körfubolta, í hástert.

Allen er ein allra besta skytta sögunnar en enginn leikmaður hefur skorað fleiri þriggja stiga körfur í sögu NBA en hann (2973).

„Fyrir mér er hann besta skytta allra tíma því hann var svo lengi á toppnum. Hann gerði þetta ár eftir ár. Það greinir hann frá öðrum. Hann var einstakur leikmaður,“ sagði Curry sem mun líklega slá þristamet Allens áður en langt um líður.

Curry hefur alls skorað 1610 þriggja stiga körfur síðan hann byrjaði að spila í NBA 2010. Curry setti met á síðasta tímabili þegar hann setti niður 402 þrista. Gamla metið frá tímabilinu 2014-15, sem Curry átti sjálfur, var 286 þristar. Allen skoraði mest 269 þrista á einu tímabili (2005-06) á sínum 18 ára langa ferli.

Allen og Curry þekkjast frá fyrri tíð en Allen spilaði með föður Currys, Dell Curry, hjá Milwaukee Bucks tímabilið 1998-99. Þá átti Allen það til að skora á hinn tíu ára gamla Curry í skotkeppni.

„Þetta voru skemmtilegir tímar,“ sagði Curry sem stefnir á að bæta þristamet Allens í framtíðinni.

„Hann gaf mér eitthvað til að stefna að. Þetta er markmið hjá mér,“ bætti Curry við.

NBA

Tengdar fréttir

Durant og Curry sáu um Phoenix

Stjörnurnar í Golden State voru í stuði í gær er Golden State vann fínan sigur á Phoenix.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×