Körfubolti

Cleveland með fullt hús og Golden State á flugi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Golden State Warriors vann í nótt sinn þriðja leik í röð í NBA-deildinni er liðið hreinlega valtaði yfir Portland og skoraði 127 stig.

Steph Curry skoraði 28 stig og setti þar af niður fimm þriggja stiga körfur. Ian Clark skoraði 22 stig og Kevin Durant 20.

San Antonio vann fyrstu fjóra leiki sína í vetur en í nótt keyrði liðið á vegg gegn Utah þar sem liðið tapaði með 15 stiga mun. Annar sigur Utah í vetur.

LA Lakers er búið að vinna einn leik og tapa þremur eftir tapið gegn Indiana í nótt.

Meistarar Cleveland eru aftur á móti með fullt hús en liðið vann Houston í miklum stigaleik í nótt. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2000 sem Cleveland vinnur fyrstu fjóra leiki sína á tímabilinu.

Kyrie Irving skoraði 32 stig fyrir Cleveland og Kevin Love 24. LeBron James skoraði 19 stig, tók 13 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.

Úrslit:

Cleveland-Houston  128-120

Philadelphia-Orlando  101-103

Indiana-LA Lakers  115-108

Miami-Sacramento  108-96

Detroit-NY Knicks  102-89

New Orleans-Milwaukee  113-117

Minnesota-Memphis  116-80

San Antonio-Utah  91-106

Portland-Golden State  104-127

Staðan í NBA-deildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×