Fótbolti

Alfreð líklega frá keppni út árið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Augsburg saknar Alfreðs.
Augsburg saknar Alfreðs. vísir/getty
Alfreð Finnbogason, landsliðsframherji í fótbolta, spilar líklega ekki meiri fótbolta á þessu ári vegna meiðsla sem hafa hrjáð hann undanfarnar vikur. Frá þessu greinir staðarblaðið Augsburger.

Alfreð er með bólgu í lífbeini sem leiðir inn í nárann en vegna meiðslanna fór hann af velli í leik Íslands og Tyrklands á Laugardalsvellinum í byrjun síðasta mánaðar. Hann hefur ekki getað spilað fótbolta síðan og var þess vegna ekki með strákunum okkar gegn Króatíu um síðustu helgi.

Augsburger heldur því fram að Alfreð þurfi tíma fram yfir áramót til að jafna sig en hann spilar þá ekki aftur fyrr en 21. janúar þegar Augsburg mætir Hoffenheim í fyrstu umferðinni sem verður spiluð eftir vetrarfríið.

Alfreð skoraði eitt mark í fyrstu sex leikjum tímabilsins en er nú búinn að missa af síðustu fjórum leikjum Augsburg. Þar er liðið búið að safna aðeins fjórum stigum af tólf mögulegum en það saknar íslenska landsliðsmannsins.

Augsburg er í töluverðum meiðslavandræðum því auk Alfreðs er talið að suðurkóreski miðjumaðurinn Koo Ja-Cheol og Raul Bobadilla verði ekki aftur með fyrr en eftir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×