Handbolti

Guðjón Valur markahæstur og með fullkominn skotleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Vísir/Getty
Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur á vellinum þegar Rhein-Neckar Löwen vann tveggja marka útisigur í Íslendingaslag á móti Bergischer HC.

Rhein-Neckar Löwen vann leikinn 26-24 eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 17-12.

Guðjón Valur skoraði sjö mörk úr sjö skotum í leiknum en öll mörkin hans komu utan af velli og þrjú þeirra voru hraðaupphlaupsmörk. Guðjón Valur fékk ekkert að spila í Meistaradeildinni í vikunni en minnti vel á sig í dag.

Alexander Petersson var næstmarkahæstur hjá Löwen með sex mörk úr ellefu skotum. Íslendingarnir skoruðu því saman 13 af 26 mörkum Ljónanna eða helming markanna.

Alexander Hermann var markahæstur hjá Bergischer með sex mörk og bróðir hans Maximilian Hermann kom næstur með fjögur mörk. Arnór Þór Gunnarsson skoraði þrjú mörk úr sex skotum.

Björgvin Páll Gústavsson var í marki Bergischer og varði 13 skot eða 33 prósent skota sem komu á hann. Hann varði 41 prósent skota frá öðrum en landsliðsfyrirliðanum.

Rhein-Neckar Löwen hefur þar með unnið sex deildarleiki í röð og 9 af 10 deildarleikjum tímabilsins. Þetta var aftur á móti fjórða tap Bergischer í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×