Netverslun jókst verulega í Bandaríkjunum á síðustu dögum og var komin upp í 1,15 milljarða Bandaríkjadala, tæplega 130 milljarða í lok þakkargjörðardagsins á fimmtudag. Samkvæmt tölum Adobe Digital stuðulsins jókst verslunin um 14 prósent milli ára. Þetta er í takt við spár greiningaraðila sem spáðu aukningu í netsölu á milli ára.
Svartur föstudagur, dagurinn eftir þakkargjörðarhátíðina, hefur sögulega verið mesti verslunardagur ársins í Bandaríkjunum og markað upphaf jólaverslunar. Eins og Fréttablaðið greindi frá hefur hátíðin þó eitthvað verið að missa vægi sitt hjá bandarískum neytendum sem versla nú meira fyrir jólin á netinu áður en dagurinn rennur upp.
Reuters greinir frá því að jólasala sé mjög veigamikil hjá smásöluaðilum í Bandaríkjunum en allt að fjörutíu prósent af heildarsölu ársins fer fram hjá verslunum í nóvember og desember. Reynt er að lokka að viðskiptavini með allt að 85 prósenta afslætti á þeim tíma. Áætlað er að jólaverslun aukist um 3,6 prósent á þessu ári og muni nema 655,8 milljörðum dollara.
Netsala rauk upp á þakkargjörðarhátíðinni
