Körfubolti

Enginn skorað meira í tapleik í 48 ár | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
John Wall, bakvörður Washington Wizards, spilaði hreint stórkostlega í nótt og skoraði 52 stig en það dugði ekki til sigurs því liðið tapaði á heimavelli fyrir Orlando Magic, 124-116.

Wall þurfti 31 skot til að skora stigin 52 en hann hitti úr fimm af átta þriggja stiga skotum sínum og ellefu af fjórtan á vítalínunni.

Þetta eru flest stig sem leikmaður í tapliði Washington skorar í 48 ár eða síðan Earl Monroe skoraði sama fjölda stiga í tapi liðsins gegn LA Lakers í febrúar 1968.

Auk þess að skora 52 stig gaf Wall átta stoðsendingar en hann er nú aðeins einn af fjórum leikmönnum í sögu NBA sem hefur afrekað þetta í einum og sama leiknum. Hinir eru Michael Adams, Russell Westbrook og Michael Jordan.

San Antonio Spurs var ósigrandi á heimavelli í fyrra en nú hefur liðið aðeins breytt til og tapar ekki leik á útivelli. Það vann Minnesota Timberwolves, 105-91, á útivelli í nótt og er 13-0 á útivelli á tímabilinu.

Kawhi Leonard skoraði 31 stig fyrir gestina í nótt en hann var með frábæta nýtingu. Hann hitti úr ellefu af fimmtán skotum sínum þar af tveimur af þremur þriggja stiga skotum og sjö af átta á vítalínunni.

Zach Levine var stigahæstur Úlfanna með 25 stig en Karl-Anthony Towns skoraði ellefu stig og tók fjórtán fráköst.

Úrslit næturinnar:

Washington Wizards - Orlando Magic 116-124

Miami Heat - New York Kicks 103-114

Detroit Pistons - Chicago Bulls 102-91

Memphis Grizzlies - Philadelphia 76ers 96-91

Minnesota Timberwolves - San Antonio Spurs 91-105

Utah Jazz - Phoenix Suns 112-105

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×