Handbolti

Wilbek hafnaði þýska landsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Ulrik Wilbek, fyrrum þjálfari dönsku karla- og kvennalandsliðanna í handbolta, afþakkaði boð þýska handknattleikssambandsins um að taka við karlalandsliðinu af Degi Sigurðssyni.

Leitin að eftirmanni Dags stendur enn yfir en sem kunnugt er stígur hann frá borði eftir HM í Frakklandi í byrjun næsta árs.

Þýska handknattleikssambandið hafði áhuga á að fá Wilbek í starfið en hann afþakkaði pent.

„Hann er þrautreyndur þjálfari sem ég hef miklar mætur á. En hann sagði nei,“ sagði Bob Hanning, varaforseti þýska handknattleikssambandsins.

Samkvæmt frétt TV2 stendur valið nú á milli Christians Prokop, þjálfara Leipzig, og Markus Baur, þjálfara Stuttgart.

„Þeir eru báðir frábærir. Við vorum með þrjá menn á blaði og nú eru tveir eftir. Þeir eru ólíkir menn með ólíkar hugmyndir um handbolta en báðir henta þörfum okkar vel,“ sagði Hanning.


Tengdar fréttir

Dagur semur við Japan til ársins 2024

"Þetta er búið að eiga sér langan aðdraganda. Það eru svona tíu ár síðan ég byrjaði að vera í stöðugu sambandi við japanska sambandið,“ segir Dagur Sigurðsson handboltaþjálfari við Vísi en í kvöld verður tilkynnt að hann hafi samið við japanska handknattleikssambandið.

Sumum finnst þetta eflaust vera skrítin ákvörðun

Dagur Sigurðsson er á leið í annað Japansævintýri á nýju ári, þrettán árum eftir að hann yfirgaf landið á sínum tíma. Hann yfirgefur eitt besta landslið heims og afþakkaði tilboð frá ríkasta félagi heims til þess að stýra uppbyggingu handboltans í Japan næstu árin. Samningur Dags nær fram yfir næstu tvenna Ólympíuleika.

Wilbek: Glaður að fara ekki á HM með Guðmundi

Ulrik Wilbek, fyrrum þjálfari danska handboltalandsliðsins, segir að hann hafi tekið rétta ákvörðun þegar hann hætti sem íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins.

Dagur: Kveðjustundin verður erfið

Segir að peningar hafi engin áhrif haft á ákvörðun hans. Hann hefði getað þénað meira annars staðar en í Japan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×