Handbolti

Erlingur rekinn frá Refunum: Sagður of rólegur og skorta leiðtogahæfileika

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Erlingur Richardsson þjálfar Refina ei meir.
Erlingur Richardsson þjálfar Refina ei meir. vísir/getty
Erlingi Richardssyni, þjálfara þýska 1. deildar liðsins Fücshe Berlín, hefur verið sagt upp störfum. Frá þessu er greint á vef Handball-World en þar er vitnað í fréttir Bild og Berliner Zeitung.

Füchse Berlín hefur ekki staðfest uppsögnina en Erlingur sagði við Bild þegar hann yfirgaf fund með yfirmönnum sínum: „Þið verðið að spyrja Refina.“

Hann sagði svo við fréttastofuna DPA: „Við komumst að samkomulagi um þetta í gærkvöldi.“ Bob Hanning, framkvæmdastjóri Füchse, sagði svo leikmönnum frá ákvörðuninni á æfingu liðsins í morgun.

Uppsögnin kemur á óvart því Erlingur gerði Berlínarrefina að heimsmeisturum félagsliða annað árið í röð í byrjun tímabilsins og þá er liðið í fjórða sæti deildarinnar. Framkvæmdastjórinn er þó sagður ósáttur við ákveðna hluti í fari Erlings.

„Bob Hanning, framkvæmdastjóri Füchse Berlin, kvartaði undan skort á leiðtogahæfni á hliðarlínunni. Það mátti einnig lesa á milli línanna ákveðna óánægju með hinn afar rólega og varkára Richardsson,“ segir í frétt þýsku fréttaveitunnar DPA um ósætti síðustu vikna innan félagsins.

Erlingur tók við liðinu af Degi Sigurðssyni þegar hann gerðist landsliðsþjálfari Þýskalands en Bob Hanning vildi fá annan íslenskan þjálfara og er spurning hvað hann gerir núna þegar Refirnir eru þjálfaralausir.

Füchse Berlín er búið að vinna tvo leiki í röð en frammistaða þess í 26-24 sigri gegn Lemgo í síðustu umferð þóttui ekki sannfærandi. Liðið er búið að vinna þrjá af síðustu sex leikjum, gera tvö jafntefli og tapa gegn Rhein-Neckar Löwen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×