Handbolti

Róbert: Ég geng stoltur frá borði

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Róbert á sínu síðasta stórmóti með íslenska landsliðinu í janúar á þessu ári.
Róbert á sínu síðasta stórmóti með íslenska landsliðinu í janúar á þessu ári. vísir/valli
„Ég er endanlega hættur. Ég mun ekki spila fleiri landsleiki fyrir Ísland,“ segir línumaðurinn Róbert Gunnarsson sem ákvað í dag að leggja landsliðsskóna á hilluna.

Það eru tæp 16 ár síðan hann spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Ísland og nú 276 landsleikjum síðar er komið að því að henda landsliðsskónum upp í hillu. Hann verður því ekki með strákunum okkar á HM í Frakklandi. Ekki frekar en Snorri Steinn Guðjónsson og Alexander Petersson sem einnig hafa hætt á þessu ári.

„Ég er búinn að liggja lengi yfir þessu. Maður ákveður ekki svona upp úr þurru. Þetta er búið að gerjast í mér í langan tíma. Það er erfitt að finna tímapunktinn hvenær sé best að hætta og ég held að það sé aldrei hægt að finna fullkominn tímapunkt.“

Róbert segir að eftir að hann flutti aftur til Danmerkur, þar sem hann spilar nú í Árósum, hafi hann fundið að það sé orðið erfiðara að taka þátt í landsliðsverkefnum

„Það er erfitt að láta sig hverfa í mánuð. Maður þarf líka að axla ábyrgð heima hjá sér. Það er einn hlutur af mörgum. Það er líka kominn tími á að hleypa nýjum mönnum að. Ég er svo að hugsa um að lengja ferilinn. Það er margt sem kemur til.“

Róbert í leik gegn Danmörku.vísir/getty
Róbert segir að landsliðsþjálfarinn, Geir Sveinsson, hafi haft fullan skilning á hans ákvörðun og borið virðingu fyrir henni. Hann sé alls ekki í neinni fýlu eftir að hafa ekki verið valinn í hópinn á dögunum.

„Við áttum mjög gott spjall og engin leiðindi. Það er allt í góðu. Það var líka allt í góðu er hann valdi mig ekki. Þeir sem þekkja mig vita að ég hef pælt í þessu í talsverðan tíma og ég held að þetta sé fínn tímapunktur til að stíga út. Mér líður vel með þetta,“ segir Róbert en ákvörðunin tengist heldur ekki því að herbergisfélagi hans til margra ára, Snorri Steinn Guðjónsson, sé einnig hættur í landsliðinu.

„Fólk hlýtur að lesa á milli línanna að þetta sé ástæðan fyrir að ég hætti. Við bundumst blóðböndum fyrir 15 árum að hætta á sama tíma,“ segir Róbert léttur.

Landsliðið hefur verið stór hluti af lífi Róberts í ansi langan tíma og hann segir að þess vegna sé það þeim mun erfiðara að kveðja.

„Við erum búnir að ganga í gegnum súrt og sætt saman strákarnir. Endalaust af stórmótum og ferðalögum sem og hlátri og gráti. Þetta er búin að vera rússíbanareið en öll ævintýri hafa sinn enda. Þetta er minn endir og ég geng stoltur frá borði. Er stoltur af því sem ég hef gert með strákunum sem eru orðnir mínir bestu vinir í dag,“ segir Róbert en hvernig heldur hann að tilfinningin verði er fyrsti leikur á HM hefst og hann verður bara heima hjá sér?

„Það verður eflaust mjög sérstök tilfinning. Ég fann samt er ég var ekki með í síðasta verkefni að mér leið ekkert illa að vera ekki á staðnum. Það var staðfesting fyrir mig að ég væri kominn á endastöð og gæti verið sáttur við að hætta. Það er forréttindi að hafa verið hluti af þessu í öll þessi ár.“


Tengdar fréttir

Geir hefur valið 28 manna hópinn fyrir HM

Geir Sveinsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, hefur valið þá 28 leikmenn sem koma til greina í íslenska hópinn á HM í Frakklandi sem hefst í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×