Handbolti

Frábær byrjun lagði grunninn að sigri norsku stelpnanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nora Mörk var markahæst í norska liðinu með fimm mörk.
Nora Mörk var markahæst í norska liðinu með fimm mörk. vísir/getty
Sigurganga Þóris Hergeirssonar og norska kvennalandsliðsins í handbolta á EM 2016 hélt áfram í kvöld þegar Noregur vann tveggja marka sigur á Danmörku, 20-22, í milliriðli 2.

Norsku stelpurnar eru því með sex stig í riðlinum en þær eru eina liðið á mótinu sem hefur ekki enn tapað stigi.

Noregur lagði grunninn að sigrinum í kvöld með frábærri byrjun. Evrópumeistararnir skoruðu fyrstu sex mörk leiksins og voru eftir það alltaf með frumkvæðið.

Staðan var 9-14 í hálfleik og þegar 48 mínútur voru liðnar af leiknum leiddu Norðmenn með fjórum mörkum, 15-19. Þá kom gott áhlaup hjá danska liðinu sem minnkaði muninn þrisvar sinnum niður í eitt mark á lokakafla leiksins.

Marit Malm Frafjord róaði hins vegar taugar stuðningsmanna Noregs þegar hún skoraði 22. mark liðsins 35 sekúndum fyrir leikslok. Lokatölur 20-22, Noregi í vil.

Nora Mörk var markahæst í norska liðinu með fimm mörk. Veronica Kristiansen kom næst með fjögur mörk.

Maria Fisker, Mette Tranborg og Trine Ostergaard Jensen skoruðu allar fjögur mörk fyrir Dani sem eru í 3. sæti riðilsins með fjögur stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×